Fjölmenning

Möguleikar fólks af erlendum uppruna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu eru takmarkaðir ef ekki er komið á móts við þarfir þeirra. Samfélagið í Kópavogi er fjölmenningarlegt og mannlífið fjölbreytilegt. Íbúarnir eiga sér ólíkan uppruna og menningararfur þeirra er mismunandi. Í þessum fjölbreytileika felst mannauður og hann verður ekki nýttur nema að hver og einn geti þannig lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Framsókn ætlar að:

  • Mynda skal nýtt ráð innan stjórnsýslu bæjarins, Fjölmenningarráð, með öldungarráð og ungmennaráð bæjarins sem fyrirmynd. Ráðið væri ráðgefandi í málum sem varða fjölmenningu og tæki afstöðu til stefnumótunar, ákvarðanatöku bæjarins ásamt því að geta lagt fyrirspurnir og tekið afstöðu til einstakra mála sem varða þau málefni sem erindisbréf ráðsins tæki til. Ráðið væri skipað einstaklingum af erlendum uppruna.
  • Upplýsingagjöf frá bænum og stofnunum þess skal taka tillit til íbúa sem tala litla eða enga íslensku. Hún skal ávallt vera veitt að fullu á ensku og jafnvel fleiri tungumálum.
  • Klára skal þýðingu vefsíðu Kópavogs á ensku og opna möguleika fyrir þýðingu á fleiri tungumálum.
  • Auglýsingar um ákvarðanatöku bæjarins og íbúalýðræði, t.d. íbúafundi varðandi skipulag, skulu vera á fleiri tungumálum en einungis íslensku.
  • Kópavogur sem vinnuveitandi á að veita starfsmönnum sem tala litla eða enga íslensku tækifæri til að sækja námskeið í íslensku sem annað mál og gefa þeim svigrúm í vinnu til að klára það.
  • Ferlar og umsóknir innan stjórnsýslu bæjarins á að einfalda. Aðgengi að þeim skal fást á fleiri tungumálum en íslensku.
  • Bjóða skal upp á móttökustöð sérstaklega fyrir fólk sem talar litla eða enga íslensku og/eða ensku.
  • Kópavogur skal ávallt kaupa þjónustu af aðilum sem veita starfsmönnum mannúðleg starfsskilyrði.
  • Framsókn í Kópavogi vill að búið sé til aðlögunar- og inngildingarferli fyrir fólk af erlendum uppruna.
  • Klára skal vinnu við nýja stefnu í málefnum útlendinga. Núgildandi stefna er rúmlega 20 ára gömul.