Skóla og menntamál

Við viljum öll börnunum okkar það besta. Við þurfum að vera styðjandi við bæði foreldra og börn, Kópavogur á að vera auðvelt val þegar fólk horfir til framtíðar og stofnar fjölskyldu. Við erum barnvænt samfélag og það þarf að endurspeglast í aðgerðum. Það er því kappsmál Framsóknar að brúa hið óbrúaða bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar, bæta við fagfólki í skólana okkar og hlusta á þarfir nemenda. Við boðum lausnir og framþróun á öllum skólastigum barnanna okkar, því velferð æskunnar er ávöxtur framtíðar.

Framsókn  ætlar að: 

  • Koma heimgreiðslum á laggirnar svo foreldrar hafi raunverulegt val um að vera heima með barni þar til það fær dagvistunarpláss. 
  • Nýta þau tækifæri sem opnast með styttingu vinnuvikunnar og sveigjanlegra vinnufyrirkomulagi í þágu barna.
  • Bæta umgjörð vinnustyttingar og heimildir til að fjölga starfsfólki.
  • Bjóða raunverulegt val fyrir foreldra í nýtingu á þjónustu dagforeldra m.a. með fjölgun dagforeldra og samræmdu inntökukerfi. 
  • Skilgreina betur leikskólastarf, þ.e. grunnþjónusta (leikskólastarf) og umframþjónusta (dagvistun). Við ætlum að finna leiðir til að mæta þeirri skilgreiningu.
  • Skapa eftirsóknarvert vinnuumhverfi í skólum bæjarins m.a. með auknu rými, bættri aðstöðu og tækjakosti. 
  • Koma fleiri leiðbeinendum í námi til starfa í leikskólanum.
  • Efla tengsl og sveigjanleika milli skólastiga enn frekar. Samræmi þarf að vera í úthlutuðum tíma til stuðnings börnum sem glíma við sértæka námsörðugleika eða fötlun, í leikskóla og við upphaf grunnskólagöngu. 
  • Stuðla að fjölgun fagfólk innan grunnskólanna. Mikilvægt er að hlúa að andlegum og félagslegum þroska barna innan skólans.  Í fjölmenningar- og fjölbreyttu samfélagi þurfum við að styðja nemendur í alls kyns aðstæðum og til þess þarf fagmenntað starfsfólk inn í skólana okkar s.s. félagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa, atferlisfræðinga og uppeldis-og menntunarfræðinga. 
  • Finna leiðir til að breyta þeim viðmiðum sem notuð eru í Kópavogi um fjölda í námshópum. Þetta á sérstaklega við um yngri nemendur.
  • Tryggja  sjálfstæði grunnskólanna í rekstri. Miðstýring þarf að vera í lágmarki.