Rekstur Kópavogsbæjar er í dag heilbrigður, bæjarsjóður er rekinn með ábyrgum hætti og skuldahlutföll eru lág. Áherslur okkar sem gegnum forystu í bæjarfélaginu eru að skila góðum rekstri í formi lægri skatta sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Á næsta ári munu því fasteignaskattar og önnur fasteignagjöld lækka samtals um 200 milljónir króna. Þannig tryggjum við að bæjarbúar taki ekki á sig ósanngjarna skattahækkun vegna hækkunar fasteignaverðs. Áfram verður áhersla lögð á að gæta aðhalds í rekstri og tryggja að  fjármagn bæjarbúa sé nýtt með sem hagkvæmustum hætti.

Við ætlum að forgangsraða fjármagni í grunnþjónustu og verður á næsta ári viðbótarfjármagni veitt í velferðarþjónustu, einkum fyrir fatlað fólks. Þá verður fjármagn aukið til að mæta betur þörfum nemenda sem eru með íslensku sem annað tungumál. Rík áhersla verður á að efla lýðheilsu barna, ungmenna og fullorðinna í heilsueflandi verkefnum. Þá hefur verið ákall þess efnis að félagsmiðstöðvar aldraðra verði opnar um helgar, við ætlum að stíga fyrsta skref í þeim efnum á næsta ári.

Umfangsmiklar framkvæmdir eru fram undan í Kópavogi samfara því sem bæjarbúum fjölgar. Nýr Kársnesskóli mun rísa á árinu, leikskólar verða byggðir í efri og neðri byggðum Kópavogs til að mæta fjölgun íbúa.  Þá eru áform um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja og ætlum við að hefja framkvæmdir á nýjum keppnisvelli við HK en því hefur verið lofað í rúman áratug. Þá hefur orðið mikil fjölgun iðkenda hjá Breiðablik samfara fjölgun íbúa sem þarf að mæta með nýjum æfingavelli vestan Fífunnar.

Ólíkar pólitískar áherslur

Í umræðu í bæjarstjórn í tenglum við fjárhagsáætlun 2024 kom berlega í ljós hversu ólíkar pólitískar áherslur eru hjá meirihlutanum annars vegar og minnihlutanum hins vegar.
Bæjarfulltrúi Samfylkingar gagnrýndi áherslur okkar á skattalækkanir og taldi að Kópavogsbær ætti að fullnýta heimild bæjarins í skattlagningu sinni, hvort sem í formi útsvarshækkunar eða hækkunar á fasteignasköttum. Ef fasteignaskattar yrðu hækkaðir upp í þá skattprósentur sem Reykjavík skattleggur sína íbúa og útsvarsprósentan yrði hækkuð upp í hámark, þá myndi það eitt og sér þýða 400 milljón króna skattahækkun á Kópavogsbúa.

Bæjarfulltrúi Viðreisnar, taldi að fresta ætti nauðsynlegum framkvæmdum á uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá HK og Breiðablik. Þannig taldi bæjarfulltrúinn, sem setið hefur í áratug í bæjarstjórn, ekki rétta tímann til að hefja framkvæmdir á aðalvelli HK, framkvæmd sem lofað hefur verið frá 2012. Þá gagnrýndi bæjarfulltrúinn einnig meirihlutann fyrir að ætla sér að hefja framkvæmdir á nýjum æfingavelli fyrir Breiðablik þrátt fyrir að vitað sé að aðstaðan er sprungin hjá félaginu vegna fjölgunar iðkenda.

Þrátt fyrir að umfangsmiklar framkvæmdir séu fram undan í bæjarfélaginu verður skuldastaðan áfram sjálfbær, skuldahlutfall lágt og greiðslugeta Kópavogsbæjar sterk. Á þeim grunni erum við reiðbúin að mæta þörfum íbúa með því að ráðast í nauðsynlegar innviðauppbyggingar eins og að mæta þörfum íþróttafélaga í bænum með uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Það er ákvörðun að gæta aðhalds í rekstri, hagræða og forgangsraða fjármunum með öðrum hætti. Eins er það ákvörðun að skila góðum rekstri í formi skattalækkana til bæjarbúa.

Undir okkar forystu verður tryggt að Kópavogur verði áfram sveitarfélag í fremstu röð þegar horft er til lífsgæða hér á landi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri og Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs

Grein birt á KGP.is: 23.11.2023